Ég er þriggja ára í dag ... Allavega samkvæmt unga manninum sem hringdi hingað áðan og söng afmælissönginn hástöfum fyrir mig.
Það var ekki einkasonurinn. Hann er greinilega búinn að gleyma afmælinu mínu. Eða hefur lesið á blogginu að einhverjir aðrir séu búnir að óska mér til hamingju og telur sig þar með stikkfrí. Hrmpfh.
Ég ætlaði að kaupa afmælisgjöf handa mér fyrst enginn annar gerir það en komst svo að því að ég er bara orðin Konan sem á allt. Mig vantaði ekkert og langaði ekki í neitt. Ekkert sem ég tímdi að kaupa mér allavega.
Ég er reyndar enn ekki orðin fjörutíuogníu, það er ekki fyrr en ellefu í kvöld. Mamma rifjaði það upp fyrir mér áðan að þegar við vorum krakkar stríddu systkini mín mér á því allan afmælisdaginn að ég væri sko ekki orðin sjö ára eða hvað það nú var ...
Ég veit annars ekki hversu nákvæmur fæðingartíminn er - hvort hann er á slaginu ellefu - og þar sem ég tek minna en ekkert mark á stjörnuspám skiptir það mig engu. En stjörnuspakt fólk hefur sagt mér að sé ég fædd klukkan ellefu sé ég í hrútsmerkinu en ef ég hafi fæðst sjö mínútum fyrr sé ég í fiskamerkinu, eins og venjulega er talið. Det rager mig en papand, eins og Andrés Önd hefði sagt á meðan hann talaði almennilega dönsku.
Fólk trúir mér aldrei þegar ég segi að ég viti ekki í hvaða stjörnumerki ég sé en það er semsagt dagsatt. Og ég er ekki á leiðinni að leita uppi fjörutíuogníu ára gamlar fæðingarskýrslur. Mér er slétt sama hvort ég telst fiskur eða hrútur. Meikar ekki diff.