Ég er nokkurn veginn búin að ná mér af pestinni nema hvað ég fæ frekar slæm hósta- og/eða hnerraköst öðru hverju sem virðast valda sumum vinnufélögum mínum meiri áhyggjum en mér. Ég er nefnilega vön þessu, fæ þetta yfirleitt upp úr svona pestum. Það er alltaf verið að biðja guð að hjálpa mér og ég tauta venjulega oní bringuna ,,það efast ég nú um að hann geri" en segi það sjaldnast upphátt.
En þetta er allt í lagi svo framarlega sem ég þarf ekki að koma nálægt sígarettureyk. Venjulega þoli ég reyk þokkalega vel en reykmettað andrúmsloft illa. Þegar ég er með þennan bronkítisfjanda eða hvað þetta nú er, þá fer minnsti vottur af reyk óskaplega illa í mig, ég fæ óstöðvandi hósta og næ varla andanum.
Ég man eftir útgáfuteiti hjá Iðunni fyrir þónokkrum árum sem haldið var í innri salnum á Tapasbarnum. Þá var ég einmitt svona og a.m.k. helmingurinn af fólkinu reykti. Það var skelfilegt; ég var alltaf að reyna að finna mér eitthvert horn til að hreiðra um mig en var varla komin þangað þegar einhver reykingamaðurinn stillti sér upp rétt hjá mér og kveikti í. Ég flúði yfir í næsta horn og þar tók sama sagan við. Það var borinn fram matur og seinni hlutann af máltíðinni borðaði ég ein við borð úti í horni því að auðvitað gat fólk ekki stillt sig um að kveikja í inni í miðri máltíð. Svo fór ég heim um leið og máltíðinni lauk.
Mikið verður nú gott þegar reykingar verða bannaðar á veitingastöðum.