Laufabrauðsgerðinni lokið. Við gerðum heldur minna en í fyrra, bara úr þremur kílóum af hveiti - rétt rúmlega hundrað kökur. Tókst alveg ljómandi vel. Öll fjölskyldan mætti nema uppáhaldstengdasonurinn, sem var að brenna kaffi langt fram á kvöld. Börnin voru reyndar misdugleg við laufabrauðsskurðinn, sum sátu mestallan tímann inni í stofu og horfðu á Prúðuleikarana.
Á morgun þarf ég að sjóða Þorláksmessuskinkuna. Það verður minna vandamál í ár en stundum áður því að ég keypti sérstakt ílát í því augnamiði á útsölu í Hagkaup í sumar.
Ég fæ greinilega fleiri jólagjafir í ár en ég gerði ráð fyrir. Er þegar búin að fá þrjár - körfu frá Gestgjafanum (það er andalifur en ekki gæsalifur í henni, gott mál), bók frá Eddu og svo fékk ég jólapakka frá Sacla-verksmiðjunum, krukku með einhverju gúmmulaði, brauðstangir, skál og skeið. Já, og svo var ég að fá tilkynningu um að ég ætti pakka á pósthúsinu; hef ekki hugmynd um hvað það er. Vonandi stór og feitur jólapakki ...