Ég keypti mér skóskáp í Ikea áðan. Ætlaði svo að vera ægilega dugleg þegar heim kom og fara að setja hann saman. En þegar ég tók hann úr kassanum kom í ljós að önnur hliðin á skápnum var með birkispón að utan, ekki beykispón eins og afgangurinn af skápnum. Svoleiðis finnst mér ekkert voðalega smart og ég held að þetta sé ekki nýtt trend í húsgögnum hjá Ikea.
Ég fékk þess vegna gagnlega barnið til að skutla mér í Ikea með skáphliðina. Hringdi á undan mér til að tékka á hvort ég þyrfti nokkuð að koma með allan skápinn. Nei, mér var sagt að koma bara með skáphliðina á þjónustuborðið. Þegar ég kom að þjónustuborðinu og útskýrði vandamálið var mér sagt að fara með skáphliðina inn í ,,gallaða hornið". Í gallaða horninu var enginn starfsmaður en ég hafði upp á einhverjum dreng sem klóraði sér í hausnum og vísaði mér inn á lager. Þar var loksins einhver tilbúinn að leysa málið og fann tiltölulega fljótt hlið sem var beyki báðum megin - reyndar kom hann fyrst með hægri hlið í stað vinstri hliðar en þar sem ég gerði allan tímann ráð fyrir því var ég fljót að benda honum á það og fékk á endanum rétta hlið.
En nú nenni ég bara ómögulega að skrúfa fjandans skápinn saman.