Uppskrift að vanillusósu, sem ég var beðin um - þetta er klassíska útgáfan en ef maður vill auðvelda sér sósugerðina aðeins er gott að hræra 2 tsk af maíssterkju (t.d. Maizena) saman við rauðurnar og sykurinn áður en vökvanum er hrært saman við. Það er hægt að nota mjólk, matreiðslurjóma eða rjóma, allt eftir því hvað maður vill hafa sósuna þykka og mjúka.
Vanillusósa
(custard sauce, creme anglaise)
400 ml mjólk (matreiðslurjómi eða rjómi)
1 vanillustöng
6 msk sykur
4 eggjarauður
Mjólkin hituð að suðu ásamt vanillustönginni en síðan látin kólna ögn. Eggjarauðurnar settar í skál ásamt sykri og skálin látin standa yfir potti með sjóðandi vatni, en vatnið á þó ekki að bullsjóða og ekki ná upp að botninum á skálinni. Rauðurnar þeyttar mjög vel í vatnsbaðinu. Vanillustöngin tekin úr mjólkinni og henni síðan hellt saman við eggjarauðurnar smátt og smátt og þeytt vel á meðan. Hrært stöðugt þar til sósan þykknar.
Ef sósan hitnar aðeins of mikið og byrjar að skilja sig er hægt að bjarga henni með því að kippa henni strax af hitanum og píska hana vel og sía hana svo e.t.v. í gegnum vírsigti.