Piadinu-uppskrift fyrir Hildigunni: Þetta er uppskriftin sem fylgdi pönnunni sem ég keypti á Rimini fyrir nokkrum árum og er alveg ágæt, en reyndar hef ég aldrei náð þeim nógu þunnum.
Piadina Romagnola
500 g hveiti
100 ml ólífuolía
3/4 tsk salt, eða eftir smekk
1/2 tsk matarsódi
volgt vatn eftir þörfum (ekki nota heitt!)
Hveiti, olíu, salti og matarsóda blandað vel saman (gott að nota matvinnsluvél) og vatni bætt út í smátt og smátt, þar til deigið er vel hnoðunarhæft og ekki mjög stíft. Látið hvíla nokkra stund en síðan skipt í 7-8 kökur sem eru flattar út í hringi, 2-3 mm á þykkt. Þykkbotna panna hituð vel og brauðin steikt við góðan hita í um 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til dökkir flekkir hafa myndast á báðum hliðum. Staflað upp jafnóðum og þau eru bökuð og viskastykki breitt yfir.