Eitt af þeim útlendu matreiðsluhugtökum sem fólk hefur lent í vandræðum með að þýða er ,,stir-fry". Ég man að í Matreiðslubók Iðunnar var þetta kallað ,,steiking að austurlenskum hætti", sem er eiginlega ekki nógu gott. Ég hef notast við þýðinguna ,,veltisteikt" og ,,veltisteiking"; það er kannski ekki fullkomið en mér finnst þó skárra en margt annað og lýsir sæmilega því sem fer fram, það er jú verið að velta matnum fram og aftur í wok-pönnunni.
En í dag sá ég í nýlegri, þýddri matreiðslubók orðið ,,hrær-steikt". Hrær-steiktur kjúklingur, held ég að rétturinn hafi heitið - ég las þetta auðvitað fyrst ,,hræsteiktur kjúklingur", rak í rogastans og fannst það ekki mjög lystilegt heiti.