Jæja, uppþvottavélaviðgerðamaðurinn kom eftir allt saman, reyndar ekki fyrr en upp úr sex. Og þetta var meira að segja sá sami og um árið, greinilega búinn að bæta sig. Náttúrlega var hann ekki með varahlutinn sem sennilega vantar í vélina og þarf að koma aftur eftir helgi. Og helvítis vélin fór úr ábyrgð fyrir innan við þremur vikum.
Jæja, það verður líklega að hafa það. Og fyrst hann var hérna lét ég hann líta á þurrkarann í þvottavélinni, sem er búinn að vera bilaður í nokkra mánuði. Hann hafði aldrei slegið feilpúst áður og því aldrei verið skrúfaður sundur, enda reyndist viftan troðfull af sautján ára samsafni af ló og óhreinindum. Sennilega orsökin fyrir biluninni.
Þannig að hann ætti að vera í lagi núna og uppþvottavélin kemst vonandi í lag eftir helgi. Nú vantar mig bara einhvern til að gera við klósettið ...