Móðirin (virðir fyrir sér einkason sinn þar sem hann hefur skrýðst nýju þýsku hermannaúlpunni sem téð móðir keypti á hann í Kolaportinu í gær): -Þú ert bara andskoti reffilegur.
Efnafræðistúdentinn (tortrygginn): -Skilgreindu reffilegur.
Móðirin: -Svona ... sko, ég meina ... ég get ekkert skilgreint það, þú ert það bara.
Efnafræðistúdentinn: -Hvað þýðir það eiginlega?
Móðirin: -Æi, bara ... reffilegur.
Efnafræðistúdentinn: -Oooh, ég veit hvað gerist, nú seturðu þetta á bloggið og færð fimmtíu svör þar sem allir eru að velta fyrir sér hvað það sé að vera reffilegur.
Móðirin: -Þú segir nokkuð, góð hugmynd.
(Móðirin fer heim og flettir upp í orðabók. Þar stendur reffilegur: gjörvilegur, myndarlegur, gerðarlegur. Efnafræðistúdentinn er náttúrlega þetta allt en samt finnst móðurinni ekki að þetta nái alveg merkingunni sem hún leggur í lýsingarorðið reffilegur. Án þess að hún geti alveg fest hendur á réttri skilgreiningu.)
Því spyr ég hlustendur, kannast þeir við orðið reffilegur? Og hvaða merkingu leggja þeir í það?