Þegar ég var tvítug og nýútskrifaður stúdent vissi ég ekkert hvert ég ætlaði mér í lífinu. (Það hef ég reyndar sjaldnast vitað en það er önnur saga.) En í þá daga þótti liggja mjög beint við fyrir fólk í svipuðum aðstæðum að gerast kennarar einn vetur eða svo, gjarna í einhverjum smábæ úti á landi; það var stöðugur kennaraskortur og alltaf hægt að fá kennslu þrátt fyrir ungan aldur og reynsluleysi.
Ég sótti um kennarastöðu á Stokkseyri og fékk hana. Það hefði alveg eins getað verið Súðavík eða Stöðvarfjörður eða nánast hvaða sjávarþorp sem var, ég man ekkert hvers vegna ég valdi Stokkseyri. Þetta var ekki gáfuleg ákvörðun en það hefur ekkert með Stokkseyri að gera; ég var bara alls ekki tilbúin til að standa á eigin fótum og fara að sjá ein um þriggja ára dóttur mína sem ég hafði fram að því látið foreldra mína sjá um uppeldið á. Og ég var svo sannarlega ekki tilbúin til að annast kennslu níu og tíu ára barna. Og verð aldrei. Ég er enginn kennari í mér.
Ég hafði aldrei til Stokkseyrar komið og þekkti þar ekki nokkurn mann. Ég var fyrst látin búa í íbúð með drykkfelldum kennara sem mér fannst miðaldra en var reyndar ekki nema rúmlega þrítugur. Ég flutti þaðan í hús sem skemmdist svo illa í flóði að ég varð að flytja enn einu sinni. Dagmamman sem ég fékk var ævinlega á náttfötunum þegar hún tók á móti barninu en ég komst ekki að því fyrr en um vorið að hún fór iðulega inn og lagði sig aftur og lét barnið vera eitt frammi.
Ég hefði örugglega gefist upp margsinnis þennan vetur ef hún Siffa hefði ekki kennt með mér. Hún hafði þá reynslu og hæfileika sem mig skorti sárlega og ég gat alltaf leitað til hennar þegar ég lenti í vandræðum. Og hún var líka vinkonan sem ég gat leitað huggunar hjá þegar mér leið illa, passaði fyrir mig þegar ég þurfti að halda, stappaði í mig stálinu þegar ég þurfti þess með og skammaði mig þegar ég átti það skilið.
Ég hef alltaf fundið fyrir því að ég ætti henni skuld að gjalda en aldrei haft tækifæri til að gera eitthvað fyrir hana. En svo lagði hún tækifærið sjálf upp í hendurnar á mér á dögunum, þegar hún kom og bað mig um að sjá um matinn í afmælinu sínu, sem var í gærkvöldi. Ég tek aldrei að mér veislur nema fyrir nána ættingja og er þó oft beðin um það. En í þetta skipti þurfti ég ekki einu sinni að hugsa mig um.
Þetta var líka dúndurveisla. Brúðarbandið og Hraun spiluðu, synir Siffu sungu, barnabörnin léku listir sínar og allir skemmtu sér vel. Mér finnst að Siffa ætti að halda oftar upp á afmælið sitt. Ég er ekkert búin að borga henni skuldina.