Það kemur ekkert mér verulega á óvart lengur. Allavega ekki í vinnunni. Ég hef langa reynslu af óvissu, breytingum og óvæntri atburðarás og það eru mörg ár síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að eina ráðið væri að yppa öxlum og segja ,,ég bara vinn hérna". Það hefur virkað hingað til, ég vinn hérna enn þótt ,,hérna" hafi reyndar tekið breytingum líka.
Til dæmis dreymdi mig, einhverja nóttina fyrir þónokkrum árum, að Jón forstjóri Iðunnar kæmi til mín og segði mér að nú yrði ég að læra hollensku því að hann væri að flytja fyrirtækið til Hollands.
Ég vissi alveg þegar ég vaknaði að þetta var bara draumur. En ég fór samt og keypti mér hollenska orðabók. Svona til öryggis.