Greinilegt á sprengjulátunum í kringum mig að sumir ætla að taka forskot á sæluna, treysta því ekki að óveðrið sem á að koma á eftir verði gengið niður um miðnætti og ætla bara að halda flugeldasýninguna sína núna.
Ég sprengi ekki neitt. Ég er svo nísk að ég hef aldrei tímt að eyða peningum í flugelda. Keypti í mesta lagi stjörnuljós handa krökkunum þegar þau voru lítil. Efnafræðistúdentinn hefur ekki látið í ljós neina sérstaka sprengjuþrá, enda geri ég ráð fyrir að hann fullnægi henni í náminu, miðað við sviðna hártoppa og brunasár á höndum.
Eiginlega langar mig ekkert að vera á ferðinni á eftir, miðað við hvernig veðurspáin er. En ég þarf víst að koma ísnum á áfangastað. Fyrst ég er búin að vesenast við að gera hann: Fimmtán egg, 1,5 l rjómi, 750 grömm súkkulaði ...