Tók El Bulli-matreiðslubókina heim með mér úr vinnunni til að fá hugmyndir að einhverju til að servera með og á undan nautasteikinni á nýársdag. Veit nú samt ekki hvernig það gengur. Ég opnaði bókina og fyrsta myndin sem við blasti var af rauðrófusúpu með ,,solid oil" (nei, ég veit ekki hvernig það er gert) og frosnu jógúrtdufti. Karamelliseruð silungshrogn - ég var reyndar að leita að einhverju til að gera við silungshrogn en veit ekki alveg ... Kornhænuegg innbakað (eða djúpsteikt reyndar) í kartöfluflögu - hmm, ég á að vísu kornhænuegg en framkvæmdin gæti þvælst fyrir mér. Karamellubúðingur með andalifur - tjaa ... Grillaðar andatungur og smokkfiskur á teini. Ég á smokkfisk í frysti en vitiði um einhvern sem á andatungur á lager? Hvítt súkkulaðisorbet með mangó og svörtum ólífum. Ferran Adria dettur ýmislegt í hug.
Gaurinn er náttúrlega fokking snillingur, eins og efnafræðistúdentinn mundi segja. En ég er ekki viss um að ég kóperi neinar af þessum hugmyndum hans mjög nákvæmlega. Ekki fyrir fjölskylduna á nýársdagskvöld, allavega.