Á morgun er semsagt mitt árlega Þorláksmessuboð (eða eiginlega ekki boð, þetta er bara opið hús og allir velkomnir). Ég fer að setja veitingarnar á borðið um þrjúleytið en ef þið eruð fyrr á ferðinni er allt í lagi að líta inn. Svo má koma hvenær sem er, allavega fram yfir miðnætti, í ýmsum erindum: Fá sér kaffisopa, smakka á ýmiss konar veitingum, hlýja sér á tánum (það verður víst ekki vanþörf á), fá að pissa (það er búið að gera við læsinguna á baðinu svo að efnafræðistúdentinn þarf ekki að vera tilbúinn með skrúfjárnið), eða bara til að óska mér gleðilegra jóla.
Látið endilega sjá ykkur ef þið eruð á Laugaveginum eða nágrenni, þetta er í leiðinni. Ég bý á Kárastíg 9a, annarri hæð (eða þriðju, eftir því hver telur). Það er ekkert skilyrði að ég viti hvernig þið lítið út, hreint ekki. Og fólk sem er búið að tala um það á hverju ári að nú ætli það að koma þetta árið er hvatt til að standa við það.
Veitingarnar verða ýmist kunnuglegar (fyrir fastagesti) eða nýstárlegar. Ýmislegt sem ég hef gert undanfarin ár nennti ég ekki að gera núna en það kemur þá eitthvað annað í staðinn. Sætabrauðsdeildin verður með rýrara móti því að bökunarfiðringurinn minn er vægari en ég hélt en eitthvað verður þar þó. Skinkan er líka í minna lagi en vonandi ekki verri fyrir það.
Hlakka til að sjá ykkur sem flest. Og þið hin öll, gleðileg jól. (Ég á eftir að segja það nokkrum sinnum í viðbót næstu daga en góð vísa er aldrei of oft kveðin.)