Matseðillinn úr norrænu galaveislunni í Kaupmannahöfn á dögunum var einhvern veginn svona:
Með fordrykknum (sem er alveg stolið úr mér hver var) var boðið upp á færeyskan saltfisk, öðuskel og beitukóng, hvert öðru betra. Fyrsti rétturinn eftir að sest var til borðs var norsk hörpuskel með piparrót og soðnu byggi; nokkuð gott (enda kokkurinn með tvær Michelin-stjörnur) og með þessu var danskt hvítvín sem var alveg drekkanlegt. Þá kom réttur sem ég held að sé dæmigerður fyrir veitingahúsið Noma (veislan var haldin í húsakynnum þess), þ.e. sagógrjónagrautur með humri, vafinn í þang og borinn fram með humarsoði. Eitthvað komu ígukerjahrogn líka við sögu. Mjög sérstakt og ansi gott en mér fannst færeyski bjórinn sem borinn var með (og er býsna góður í sjálfu sér) ekki alveg passa. Síðan kom steikt síld með ,,matjeskavíar" að hætti Hans Vallimäki frá Finnlandi. Ég hef aldrei verið mikið fyrir steikta síld en þessi var alveg ágæt og það skemmdi ekkert að fá bæði finnskan bjór og ákavíti með.
Bocuse d'Or-sigurvegarinn Mathias Dahlgren bauð upp á dillkjötsúpu að hætti ömmu sinnar. Hún var alls ekki slæm en persónulega elda ég nú betri kjötsúpu. Það getur vel verið að sænska lambakjötið sé bara ekki nógu gott. (Ég smakkaði lambakjöt frá öllum hinum löndunum nema Finnlandi. Íslenska lambið hafði ótvírætt vinninginn.) Ég man ekki hvað var boðið upp á að drekka með því en með grænlenska hreindýrinu var tvenns konar danskt rauðvín sem var alveg þokkalegt, sérstaklega önnur tegundin. Hreindýrafilletið, sem var borið fram á ristuðu rúgbrauði, með villisveppum soðnum í ylliblómasaft og með einiberjasoði. Ljómandi gott en bitinn sem ég fékk var fullmikið steiktur.
Nú komu fjórir mismunandi ostar, hver öðrum betri - ekki spyrja mig hvaða ostar samt - og með þeim var finnski múltuberjalíkjörinn Lakka. Sem ég held að sé einn af þessum drykkjum sem fólk kann annaðhvort að meta eða alls ekki. Ég er í fyrri hópnum og ég og starfskona Finnfood, sem sat við hliðina á mér, vorum afskaplega sáttar við þessa samsetningu. Og svo var endað á skyrís og skyrfrómas með berjasósu frá Hákoni Örvarssyni. Afbragð og sessunautar mínir gerðu þessu góð skil þótt það væri síðati réttur af átta. Með skyrinu var svo eisweinið sem ég nefndi í gær, sænska vínbóndanum til mikillar gleði. Get alveg mælt með því en mér skildist að það væri eingöngu selt í Svíþjóð, New York og Japan.
Ég veit ég er að gleyma einhverjum af öllum drykkjunum sem boðið var upp á þarna. Og stöðugt gengið um og bætt í glösin. Mesta furða að ekki skyldu einhverjir velta niður stigann að borðhaldi loknu en fólk var furðu stöðugt á fótunum þegar staðið var upp um hálftólfleytið eftir fimm tíma setu yfir mat og drykk. Ég labbaði meira að segja heim á hótel, tuttugu mínútna rölt, og var þó á háum hælum. Og það var hálka á gangstéttunum. Var þó mætt aftur á ráðstefnuna upp úr klukkan átta næsta morgun. Svona er ég nú stabíl.