Fyndið hvað minnið getur blekkt mann þegar verið er að bera saman hluti frá einu ári til annars. Ég man að þegar ég var að vinna í bókaútgáfubransanum, þá var sagt á hverju einasta ári ,,mér finnst að jólabækurnar séu svo seint á ferðinni í ár, miklu seinna en venjulega". Og í gærkvöldi sagði ritstjóri Gestgjafans eitthvað um að jólablaðið hefði líklega aldrei verið jafnseint á ferðinni og núna og var ekki kát yfir. Ég athugaði málið (pottþétt heimild, mitt eigið blogg). Og þá sá ég náttúrlega að í fyrra vorum við heilli viku seinna á ferðinni, skiluðum ekki jólablaðinu í prentsmiðju fyrr en um mánaðamót.
Þannig að við erum í góðum málum, þannig séð. Og blaðið er meira að segja 48 síðum stærra en jólablaðið í fyrra.