Kertafleytingin á Tjörninni er alltaf sérstök stund. Ég dett alltaf niður í melankólíu en það er eiginlega tilgangurinn. Ég fer að horfa út á gáraðan vatnsflötinn og ljósin og alltaf leiði ég hugann ósjálfrátt að börnunum í Hiroshima og Nagasaki. Og svo fer ég að hugsa um öll önnur börn sem hafa þurft og þurfa enn að deyja og þjást. Og þegar þar kemur er vel þegið að einhver komi og trufli mig því annars er hætt við að tárin fari að renna niður kinnarnar. Ég er nefnilega svo meyr. Hef alltaf verið þannig, alveg frá því að ég hágrét yfir myndum í Tímanum af napalmbrenndum börnum í Víetnam og hungursneyðarbörnum í Biafra.
Núna voru það efnafræðistúdentinn og skylmingastúlkan sem komu á hárréttu augnabliki og síðan fleiri og ég fór heim döpur en næstum þurreyg.
En mikið óskaplega var þetta fallegt kvöld.