,,Ef þið sköðuðuð aðeins líkamann, þá mætti þola það; en þar sem sum fæða skaðar hugann, þá spillið þið sjálfum mannshuganum. Lítið bara á fiskæturnar ykkar; eru þær ekki ásýndar líkar fiskum, fölar, illþefjandi, heimskar og daufdumbar?"
Nei, Erasmus frá Rotterdam var víst ekkert sérstaklega gefinn fyrir fisk.
Ég var að fá í póstinum í dag ritið Eten en Cultuur/Food and Culture, sem gefið er út í tilefni af veitingu Erasmusverðlaunanna í fyrra. Þar er meðal annars birt ræðan sem Alan heitinn Davidson hélt þegar hann tók við verðlaununum og þar vitnaði hann einmitt í þessi orð Erasmusar - líklega hefði sá mæti maður ekki verið sáttur við að verðlaun kennd við hann væru veitt manni sem lengst af var einkum þekktur fyrir skrif sín um fisk og fiskmatreiðslu.