Eldhúsmálunin gengur vel, ekki síst eftir að Boltastelpan kom mér til aðstoðar í morgun - reyndar kom hún ekki í þeim erindum, heldur bara til að vera hér á meðan farið var með bróður hennar á slysadeildina, en hún hefur verið mjög rösk að mála og það svo að ég komst varla að.
Drengurinn datt semsagt fram úr rúminu sínu snemma í morgun, fékk gat á hausinn og þurfti að fá þrjú spor í hnakkann. Hann grenjaði víst eins og óargadýr um leið og hann áttaði sig á hvað átti að gera við hann á slysadeildinni en er víst orðinn sáttur núna og farinn að lita í litabókina sem hann fékk í ,,verðlaun". Kannski drengurinn verði álíka hrakfallabálkur og móðir hans, sem var fastagestur á slysó öll sín bernsku- og unglingsár.
Við nánari athugun er liturinn á eldhúsinu ekkert líkur slýi. Þetta er meira eins og ljósgrænn mosi. Boltastelpunni finnst liturinn asnalegur. En það birtir heilmikið í eldhúsinu.