Þegar við Boltastelpan vorum í London á dögunum, þá sátum við í hádeginu einn daginn fyrir utan kaffihús í Soho og vorum að borða og þá komu menn með kvikmyndatökuvél og fóru að taka upp eitthvert atriði þarna í götunni rétt hjá okkur - það fór þannig fram að ungur maður kom hlaupandi út úr stigagangi í næsta húsi við kaffihúsið, leit snöggt út eftir götunni, tók viðbragð, öskraði: ,,Hey! That's my car!" og hljóp svo á harðaspretti framhjá okkur og öskraði: ,,That's my car! That's my car!" Þetta var endurtekið einu sinni eða tvisvar. Svo hvarf þessi en þá var allt í einu kominn annar strákur og sama atriðið endurtekið. Það var greinilega verið að prófa leikara í eitthvert atriði, þeir komu þarna einn af öðrum og léku þetta af mismiklum tilþrifum - hér er mynd af einum þeirra. Boltastelpunni fannst þetta allt mjög skondið og við sátum lengur á kaffihúsinu en við höfðum ætlað okkur því að hún vildi fylgjast með. Sérstaklega fannst henni fyndið þegar svo hittist á að þegar einn drengurinn tók viðbragð og byrjaði að öskra og benda ók einmitt stór trukkur framhjá og strákurinn hljóp á eftir honum eins og fætur toguðu.
Ég vissi ekkert hvað var verið að prófa þarna fyrir og átti ekki von á að komast að því; gerði ekki ráð fyrir að það væri nein Hollywoodmynd. Var eiginlega búin að gleyma þessu þangað til í gærkvöldi, þá var ég inni í stofu og það var kveikt á sjónvarpinu - Sky News - en ég var ekki að horfa. Allt í einu heyrði ég að einhver fer að öskra ,,Hey! That's my car!" og leit upp - það var verið að sýna auglýsingu um einhvern bíl, Toyota Corolla að ég held, og þarna var greinilega einn af drengjunum úr leikaraprófinu kominn, hlaupandi á eftir bílnum - ekki þó sá sem er á myndinni. Ég sá reyndar ekki byrjunina á auglýsingunni og veit ekki nákvæmlega hvert konseptið var en þetta var allavega ekki tekið í Soho.