Jamm, búin að elda gourm ... alltsvo þarna þorskinn. Og líka ýsu, lúðu og karfa. Karfinn var mjög fínn (steiktur á grillpönnu og borinn fram með tómat-rækju-lárperusalsa) en flestir sem smökkuðu hann létu þess getið að þeir hefðu ekki haft mikla löngun til að matreiða eða yfirleitt smakka karfa lengi framan af ævi eftir frystihúsavinnu á unglingsárum.
Ég get alveg tekið undir það. Það kom mér verulega á óvart þegar ég smakkaði karfa í fyrsta skipti, þá harðfullorðin, að sá fiskur skyldi yfirleitt vera ætur. Ég hafði fram að þeim tíma aðallega kynnst karfa sem var búinn að liggja steindauður í togaralest í tvær til þrjár vikur. Það hvetur ekki til frekari kynna.
En þessi var ansi góður.