Ég stóð áðan við fiskborðið í ónefndum stórmarkaði. Vantaði fallegan fiskbita til að nota í rétt sem ég er að fara að búa til á eftir og hafði hugsað mér þorsk. Í miðju fiskborðinu var fat með ljómandi fallegum þorskhnakkastykkjum, að mér sýndist. Afgreiðslumaðurinn kom og bauð góðan daginn.
Matargúrúið: - Góðan daginn, ég ætla að fá þorsk hjá þér.
Afgreiðslumaðurinn skimar fram og aftur um fiskborðið. - Því miður, ég held að ég eigi hann bara ekki til.
Matargúrúið bölvar sjálfri sér að þekkja ekki þorsk frá öðrum fiskum. - Nú jæja, ætli ég fái þá ekki bara ýsu.
Afgreiðslumaðurinn fer að seilast í ýsuflak.
Matargúrúið: - En hvaða fiskur er þetta annars? (bendir á hnakkastykkin á fatinu).
Afgreiðslumaðurinn: - Ja - jú, þetta er þorskur en þetta er svona gourmet - sko, þetta er fillet úr þorskflaki ... og það er náttúrlega dýrara ...
Matargúrúið: - En þetta er þorskur.
Afgreiðslumaðurinn: - Jaaaá ...
Matargúrúið: - Og ég spurði um þorsk.
Afgreiðslumaðurinn: - Ætlarðu þá að fá þennan?
Döh.
Nú er ég að velta fyrir mér: Lít ég ekki nógu gourmet-lega út? Er ég svo fátæklega klædd að afgreiðslufólki þyki ólíklegt að ég ætli að kaupa dýrari útgáfuna af einhverju? Og hver andskotinn er ,,fillet úr þorskflaki"?