Ég er fyrst núna að komast í matreiðslustuð aftur eftir törnina síðustu tvær vikur. Það er að segja, ég hef náttúrlega lítið gert annað en elda og undirbúa fyrir myndatökur á þeim tíma en heimilismatseldin hefur meira og minna setið á hakanum og efnafræðistúdentinn og aðrir sem hafa slæðst í mat til mín hafa að mestu orðið að láta sér nægja leifar frá myndatökum. Ekki að neinn hafi kvartað sérstaklega, en ...
Þannig að sennilega elda ég eitthvað gott í kvöld handa syninum. Svo er reyndar myndataka á fimm til tíu réttum (eftir því í hvernig skapi ég verð) á morgun en það er minna mál. Ég þarf að ljúka við mína þætti fyrir næstu tvö blöð í þessari viku og næstu því að svo er ég farin í sumarfrí og ætla að gera heiðarlega tilraun til að taka samfellt frí í mánuð. Hvernig sem það gengur.
Trúlega grilla ég í kvöld.