Þegar ég var að lesa síðuna hennar Hörpu áðan, þá datt mér í hug kveðja sem stundum veltist fyrir mér, ekki beint að ég gæti gert hana að einkunnarorðum mínum en samt er þetta viðhorf að mínu skapi:
,,Always do as you please, and send everybody to Hell, and take the consequences. Damned good Rule of Life."
Það er einna helst miðhlutinn - send everybody to Hell - sem ég get ekki tekið undir, það er ekki í mínu eðli. Afganginn langar mig stundum að gera að mínu mottói. Gerðu eins og þér sýnist og taktu afleiðingunum. (Ég hef að vísu oft staðið mig betur í að gera eins og mér sýnist en í að taka afleiðingunum - en það er önnur saga.) Málið er að láta hjartað ráða (eða skynsemina, eftir atvikum) en ekki álit annarra, ytri þrýsting, eigin ótta við breytingar eða eigin vanmátt. Og bera svo ábyrgð á eigin ákvörðunum.
Það á hinsvegar ekki að nota þessa lífsreglu sem afsökun fyrir því að fara sínu fram án þess að taka nokkurt tillit til annarra og skeyta hvorki um skömm né heiður. Og kannski hollt að hafa í huga að sá sem skrifaði þessi kveðjuorð var gamall fordrukkinn rithöfundur sem var útlægur frá heimalandi sínu vegna pedófílískra tilhneiginga og viðtakandinn ung kona sem átti eftir að deyja sem roskinn, sérsinna og einmana alkóhólisti þótt hún væri þá orðin einhver þekktasti matarhöfundur heimsins.