Oftast nær er ég ansi kát með lágt gengi dollarans; þó ekki núna áðan, ég var að fá höfundarlaunaávísun frá bandaríska útgefandanum mínum. Þetta er svosem enginn stórpeningur, enda er bókin ekki ofarlega á sölulistum, en þó dálítill glaðningur - óvæntur meira að segja, því að ég hafði ekki hugmynd um að bókin væri búin að seljast meira en sem nemur fyrirframgreiðslunni. En þegar ég fékk fyrirframgreiðsluna á sínum tíma stóð dollarinn í rúmlega 105 krónum, núna er hann um 70 krónur.
Ojæja, þetta dugir nú samt fyrir nokkrum bókum.
Reyndar held ég að dollarinn hafi verið í innan við 80 krónum þegar ég samdi við útgefandann upphaflega; samningurinn týndist í pósti og þegar nýi samningurinn var gerður og ég fékk greiðsluna hafði dollarinn hækkað svona hressilega. Ávísunin sem ég fékk núna er send í staðinn fyrir aðra sem mér skilst að hafi verið send í september en þar sem hún var send á Iðunni hefur sú ávísun sennilega lent hjá Eddu miðlun og liggur þar kannski enn, eða hefur hafnað í ruslafötu einhvers. Það er allavega búið að ógilda hana og senda mér aðra í staðinn. Ég veit ekki hvað dollarinn var í september en líklega þó eitthvað hærri en núna. Það er semsagt ýmislegt sem hefur áhrif á höfundarlaunin mín, bæði til hækkunar og lækkunar ...