Skrítið að sjá hvað fannfergið er ofboðslega mikið á Skagaströnd; nú er ekki ýkja langt þaðan yfir á Krókinn en þar skilst mér að mjög lítill snjór hafi verið að undanförnu, þótt eitthvað hafi bæst við í dag. En þetta er svosem ekki snjóþungt pláss. Ég man bara einu sinni eftir verulega miklum snjóþyngslum þegar ég átti heima þar og mamma sagði mér í dag að jafnmikill snjór hafi aldrei komið síðan. Það var snemma árs 1974. Þá man ég eftir að hafa skroppið út í sjoppu rétt fyrir lokun um kvöldið í þokkalegu veðri og snjórinn náði rétt í ökkla. Þegar ég vaknaði um morguninn sást ekki út um gluggann á herberginu, það var skafl upp á þakbrún. Ekki kannski mikið miðað við það sem fólk í snjóþyngri plássum þekkir til en þótti mikið á Króknum.
Allavega þarf fólk ekki að hafa áhyggjur af snjóflóðum þarna. Ég man einu sinni eftir að snjóflóð félli á Króknum, það var þegar hengja féll úr einni klaufinni á Nöfunum ofan á fjárhús og getur verið að einhverjar kindur hafi drepist. En það var sérstakt tilvik, því að ef ég man rétt sátu tveir feitustu strákarnir á Króknum á hengjunni þegar hún fór af stað og fóru með henni niður.