Ég veit ekki hvort er eitthvað óvenju kalt í dag en það er búinn að vera hálfgerður hrollur í mér frá því í morgun, samt held ég ekki að ég sé að verða veik. Reyndar spilaði það kannski inn í að ég gleymdi hönskunum mínum heima og var berhent á leiðinni í vinnuna. Svo voru hanskarnir orðnri slitnir og ljótir og ég búin að ætla mér að kaupa nýja. Þegar ég gekk framhjá Tösku- og hanskabúðinni á heimleiðinni sá ég að þar var útsala svo að ég skaust inn og skoðaði hanska. Endaði með að kaupa mér tvenna. Aðrir voru fóðraðir með lambsskinni og konan sem afgreiddi mig fullyrti að þetta væru hlýjustu hanskarnir í búðinni. Ég fór í þeim heim. Þegar ég stakk höndunum í þá á búðartröppunum hlýnaði mér allri samstundis og tilfinningin var einhvern veginn: mér á aldrei eftir að verða kalt á höndunum aftur. Því miður er það sennilega ekki rétt, ekki ólíklegt að ég týni hönskunum innan tíðar. Mér helst illa á hönskum. En þeir eru góðir.
Matargerðin í kvöld var líka í samræmi við kuldann sem ég fann fyrir: Ofnbakað spaghettí bolognaise með parmesanosti. Ekki slæmt.