Mikið var ég ánægð með nýju hanskana mína í dag. Reyndar varð mér einu sinni kalt á höndunum en það var þegar ég var að róta í frystinum í Krambúðinni í leit að súpukjöti; það stendur nefnilega til að hafa kjöt í karríi í kvöldmatinn. Ekta hríðarmatur.
Ég var að reyna að rifja það upp fyrir mér áðan hvar ég hef borðað þar sem bornar voru fram franskar kartöflur með kjöti í karríi en kem því ekki fyrir mig. Ég ætla nú ekki að fylgja því fordæmi, þetta var ekki sérlega efnileg samsetning.
Ég man líka eftir að hafa stöðvað afgreiðslumann í einhverri verslun sem bauð upp á heitan mat í hádeginu í því að skammta mér franskar kartöflur með kartöflugratíni. Það eru takmörk.