Af hverju í ósköpunum geta ekki allir séð hvað blár litur fer skelfilega illa við flestan mat? Ekki alveg undantekningalaust að vísu en ég er til dæmis núna að horfa á þátt af Ready Steady Cook þar sem einn rétturinn er framreiddur á dökkbláum diski sem drepur hann gjörsamlega. Ég man líka eftir grillþætti - ætli það hafi ekki verið í Veru, bloggblaðinu í vor - þar sem allir réttir voru myndaðir á dökkbláum diskum sem fóru skelfilega með þá.
- Ókei, það sjá þetta kannski ekki allir en flestir eru þó sammála mér þegar búið er að benda þeim á þetta og þeir hafa virkilega horft á matinn. Ef þið eigið diska í mismunandi litum og þar á meðal bláum, prófið þá einhvern tíma að skammta sama réttinn á nokkra mismunandi og athuga hver freistar ykkar mest. Ég er nokkuð viss um að það verður ekki rétturinn á bláa diskinum.
Nú segir ábyggilega einhver ,,hvaða máli skiptir það, bragðið er það sama". Tjaa - já og nei. Útlitið á réttinum hefur áhrif á hvernig hann bragðast (ekki hvernig hann er á bragðið, heldur hvernig maður skynjar bragðið). Þetta er örugglega líka hægt að sannreyna á Le Gout du Noir í París, þar sem gestirnir borða matinn sinn í niðamyrkri. Mér skilst á því sem ég hef lesið um þann stað að gestirnir segist finna bragðið af matnum miklu betur af því að þeir geti einbeitt sér að því en þó aðeins ef réttirnir eru tiltölulega einfaldir; engar flóknar sósur eða þess háttar. Reyndar eru komnir fleiri slíkir veitingastaðir, eins og þessi hér í London.
En lyktarskynið kemur náttúrlega inn í þetta líka ...