Ég held að það sé alveg ljóst að Sauðargæran er mikið kokkaefni. Hann bjó til afbragðsgóða sósu með kjúklingnum sem var í kvöldmatinn, fékk að vísu dálitla hjálp við það, en áhuginn var mjög einlægur. Svo smakkaði hann sósuna nokkrum sinnum, brosti breitt og tilkynnti: ,,Góð sósa." Enda borðaði hann lítið annað þegar hann settist að borðum og fékk á endanum afhenta skeið til að borða hana með.
Þegar faðir hans var að klæða hann í skóna frammi á stigapalli áðan greip snáðinn annan skóinn og henti honum niður alla stigana og niður í forstofu. Systir hans var send niður að sækja skóinn en drengurinn glotti út undir eyru og sagði: ,,Pabbi er ekki glaður."
Annars var hann búinn að vera einstaklega röskur aðstoðarmaður; auk sósugerðarinnar hjálpaði hann mér að bera á borðið, kallaði á fólk í matinn, setti í uppþvottavélina með mér og setti þær af stað, malaði kaffi, fór með bolla á borðið, gaf þeim sem vildu mjólk í kaffið og þurrkaði upp mjólkina sem hann hellti niður. Gott að fá svona menn í heimsókn.