Efnafræðistúdentinn er loksins á batavegi. Hann fékk málið aftur klukkan eitt í nótt, á slaginu, og hótar nú hefndum þar sem hann hefur verið ómálga og ekki getað svarað fyrir sig í fjóra daga. Hann fór líka að geta kyngt fastri fæðu og í tilefni af því eldaði ég hádegismat í dag - annars er venjulega bara léttmeti á borðum í hádeginu á sunnudögum, eða ekki neitt - norður-afrískan kjúklingapottrétt með ólífum og kjúklingabaunum.
Ken Hom er í sjónvarpinu (BBC Food) að steikja Sesúan-rækjur með engifer og chili og sesamolíu og fleira góðgæti. Ansi girnilegt. Kannski ég hafi eitthvað svipað í kvöldmatinn annað kvöld. - Þau ykkar sem eruð með breiðvarpið en hafið ekki náð BBC Food, prófið að slökkva og kveikja á afruglaranum og stilla svo á rás 23.