Ég var spurð um Ebay hér á undan. Ég hef keypt töluvert gegnum Ebay, eða gerði það fyrir 1-2 árum, en reyndar næstum eingöngu bækur svo að ég hef litla reynslu af öðru. Það er mjög misjafnt hvort ég hef þurft að borga virðisaukaskatt af þessum sendingum og fer ekkert eftir því hvernig þær eru merktar (ég hef aldrei beðið um að sendingar til mín séu merktar sem gjöf til að reyna að komast undan því að borga af þeim, veit þó að sumir gera það en ég held að það sé ekkert mark tekið á slíkum merkingum). Frekar fer það eftir stærð sendinganna; smápakka sem komast inn um bréfalúguna hef ég oftar en ekki fengið beint án þess að þurfa að borga nokkuð en annars hef ég borgað virðisaukaskatt og afgreiðslugjald sem nú er 350 krónur á hverja sendingu.
Ebay er náttúrlega uppboðsmiðstöð þar sem mörg hundruð þúsund seljendur eru með vörur og reglurnar eru eins misjafnar og þeir eru margir. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að fá öll vafaatriði á hreint áður en maður setur inn boð af því að boðið er jú bindandi. Fyrst af öllu þarf að athuga hvort þessi tiltekni seljandi sendir til Íslands - margir bandarískir seljendur vilja eingöngu selja innan Bandaríkjanna og það verður maður að virða. Samt er allt í lagi að senda seljandanum tölvupóst og spyrja hvort hann sendi til Íslands, margir eru til með að gera það þótt þeir segi ,,US only" á uppboðssíðunni. Líka mætti athuga með Shop USA, sem hefur milligöngu um sendingar til Íslands, en ég veit ekki nógu vel hvernig það virkar.
Annað sem þarf að athuga vel er sendingarkostnaður og maður ætti aldrei að bjóða í eða panta neitt nema vera búinn að athuga það mál fyrst. Bæði er að póstkostnaðurinn sjálfur er oft mun hærri en maður ætlar (gott að athuga það hér) og svo eru sumir seljendur sem smyrja hressilega ofan á póstkostnaðinn. Fyrir bækur og ýmsa smáhluti sem ekki þurfa mikinn umbúnað er ,,Global Priority Flat Rate Envelope" oft besti kosturinn (5-9 dollarar eftir stærð og kemur frekar fljótt). Svo þarf líka að athuga með greiðslumöguleika. PayPal er fljótlegast og einfaldast en það eru ekki allir sem taka þannig greiðslu og það eru til fleiri möguleikar, t.d. hér.
Á Ebay er líka mikilvægt að skoða seljandann áður en maður býður í hlutinn. Smella á svigann aftan við ebay-nafnið og skoða feedbackið. Hér er dæmi um seljanda sem ég hef keypt af oftar en einu sinni; hann er með 7786 jákvæðar umsagnir, eina neikvæða. Pottþéttur náungi semsagt, og það er í samræmi við mína reynslu af honum. Aftur á móti dytti mér aldrei í hug að eiga viðskipti við þennan hér (reyndar búið að reka hann af Ebay). Og það er óráðlegt að kaupa dýrari hluti af einhverjum sem eru með nánast ekkert feedback. Og endilega spyrja um öll vafaatrið áður en maður setur inn boð.
Þetta er það sem mér dettur fyrst í hug varðandi verslun á Ebay og margt af því á líka við um önnur netviðskipti. Ef einhverjir aðrir hafa eitthvað til málanna að leggja, gerið það þá endilega.