Jólaserían með feitu aulalegu snjókörlunum, sem mikil leit hefur verið gerð að hér á heimilinu að undanförnu, fannst loksins áðan ofan í skókörfunni minni (þar eru aðallega geymdir gamlir skór af mér sem ég hef keypt í einhverju bjartsýniskasti og eru flestir svo löngu farnir úr tísku að þeir gætu komist í tísku aftur fyrr en varir). Ekki veit ég hvernig aulalegu snjókarlarnir höfðu lent þar í stað þess að vera í jólaskrautskörfunni með feitu aulalegu jólasveinunum, þar sem þeir eiga heima. Kannski hef ég tekið feil á körfum á þrettándanum síðasta - og þó, ég hef nokkrum sinnum átt erindi í skókörfuna síðan þá. Kannski eru þetta búálfarnir.
Aftur á móti er næsta víst að búálfar höfðu ekkert með það að gera að fótbolti í eigu efnafræðistúdentsins fannst lengst undir rúminu mínu. Þar liggur tveggja og hálfs árs glókollur með fótboltaáhuga sterklega undir grun.
Undir sófanum í stofunni fannst inniskór af efnafræðistúdentinum sem er búinn að vera týndur svo lengi að eigandinn heilsaði honum kumpánalega með nafninu Geirfinnur. Ég minnti hann á hver hefði það hlutverk á sinni könnu að sópa og skúra stofuna, þar með talið undir húsgögnunum og á bak við þau. Drengurinn fullyrti að hann gerði það. Stundum. Yeah. Recently, svo ég vitni í dvergana sjö (Disney-útgáfuna) þegar Mjallhvít var að yfirheyra þá um hvenær þeir hefðu síðast farið í bað.
Jamm, ég er í jólatiltektinni.