Við Boltastelpan vorum að gera konfekt áðan, gerðum einar sex tegundir, og hér eru tvær þeirra - önnur fyrir mig, hin fyrir hana:
Apríkósumolar
10 þurrkaðar apríkósur (+2)
100 g marsípan
1 msk Grand Marnier
50 g grófhakkaðar möndlur
100 g suðusúkkulaði
10 apríkósur settar í matvinnsluvél og saxaðar smátt. Marsípani, líkjör og möndlum hrært saman við og síðan eru mótaðar fremur litlar kúlur úr massanum. Súkkulaðið brætt í vatnsbaði, kúlunum velt upp úr því, einni í einu (best að nota tvo gaffla) og síðan eru þær settar á pappírsklædda plötu. 2 apríkósur skornar í þunnar sneiðar, ein sneið lögð ofan á hverja kúlu, og kælt þar til súkkulaðið er storkið. Geymt í kæli.
Súkkulaðisykurpúðar Heklu
100 g suðusúkkulaði
60 g litlir sykurpúðar (mini-marshmallows)
Súkkulaðið brætt í vatnsbaði. Sykurpúðunum hrært saman við. Sett með teskeið í hrúgur á bökunarplötu (3-4 sykurpúðar í hverri hrúgu). Ef amman fengi að ráða væri 50 g af heslihnetuflögum bætt út í blönduna en amman fékk ekki að ráða.