Sunnandeild saumaklúbbsins hélt semsagt af stað til Akureyrar á tveimur jeppum á laugardagsmorguninn til að halda 25 ára afmælisfund. Og komst þangað síðdegis, þótt jeppunum hefði fækkað um helming eftir bílveltu í Víðidalnum.
Það er ekkert sérlega gaman að horfa á bíl sem er rétt á undan renna til í flughálku þegar verið er að sveigja undan til að reyna að komast hjá árekstri við annan bíl, fara út af, kastast eina og hálfa veltu og lenda á toppnum. Það er enn minna gaman þegar í bílnum eru fimm konur sem eru búnar að vera vinkonur manns í hátt í þrjátíu ár. En hvernig sem á því stóð var ég alveg viss um það um leið og jeppinn staðnæmdist á hvolfi, allur klesstur, að þær væru allar heilar á húfi. Hinar sem voru með mér í bílnum voru jafnsannfærðar um að einhverjar þeirra eða allar væru stórslasaðar eða verra. Enda ekki furða, miðað við hvernig bíllinn var farinn. En þær voru allar í belti, héngu þarna á hvolfi eins og leðurblökur í hlöðu, og fyrir eitthvert ótrúlegt lán sluppu þær allar með marbletti, tognanir og stirðleika. Og eftir krísufund á Blönduósi voru allar sammála um að það eina rétta væri að halda ferðinni áfram, á þeirri forsendu að það væri betra að vera dálítið lemstraðar og dálítið sjokkeraðar í sameiningu en hver í sínu horni.
Sem reyndist hárrétt ákvörðun, því að okkur var tekið fagnandi heima hjá Akureyrardeildinni, þar sem Hallormsstaðardeildin var líka mætt, og þar skemmtum við okkur við okkur við veisluundirbúning (rauðvínsdrykkja telst til veisluundirbúnings, að sjálfsögðu), borðhald, upprifjun menntaskólaminninga, meiri rauðvínsdrykkju og önnur hefðbundin saumaklúbbsstörf. Úthaldið var að vísu misgott, Siggurnar kvöldsvæfar að vanda en við Begga fórum ekki í rúmið fyrr en um fjögur og þá ekki fyrr en Begga hafði gefist upp á að draga mig út með sér.
Bíllausi hluti saumaklúbbsins fór suður með flugvél og voru víst allar jafnfegnar því að fara ekki akandi. Við hinar ókum suður og fengum þoku og hálku góðan hluta leiðarinnar, svo að það var ekkert verið að flýta sér.
En þetta var skemmtileg helgi þrátt fyrir slysið. Og verður ógleymanleg.