Ætli mislingar verði næsta farsóttin sem gengur yfir Vesturlönd?
Nú er víst búið að afsanna að nokkur tengsl séu á milli mislingabólusetningar og einhverfu en það gæti samt orðið hægara sagt en gert að útrýma þeirri trú og margir foreldrar hafa látið hjá líða að bólusetja börnin sín. Sumstaðar á Bretlandi eru svæði þar sem aðeins rúmlega 60% barna fá bólusetningu.
Ég fékk mislinga þegar ég var nýorðin 16 ára. Það var í lok Sæluviku og ég tengdi vanlíðan mína á laugardagsballinu aðeins við djammið á þriðjudags-, fimmtudags- og föstudagsballinu. En þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgni - fyrir hádegi meira að segja - og leit niður eftir skrokknum á mér, þá brá mér allsvakalega.
Þetta var semsagt fyrir daga mislingabólusetningar og nágrannakona okkar kom með ungan son sinn í sjúkraheimsókn til að láta hann smitast af mér. Hann var neyddur til að snerta mig, sem hann gerði afskaplega tregur og horfði á þessa útsteyptu og flekkóttu frænku sína með skelfingarsvip á meðan; svo kippti hann hendinni að sér í örvæntingu og strauk og neri lófann ákaft til að reyna að losa sig við smitið. Það hlýtur að hafa tekist, allavega veiktist hann ekki í það skipti.