Mig vantar eitthvað til að lesa á flugvöllum og í flugvélum í dag. Reyndar var ég að fá mjög álitlega bók frá amazon.co.uk í gærkvöldi, Toast, bernskuminningar breska matargúrúsins Nigels Slater, sem er einn af mínum uppáhaldshöfundum, mjög góður kokkur og mjög góður rithöfundur. Ég byrjaði aðeins á henni og hún stóð alveg undir væntingum. Yndisleg bók, líka þótt maður hafi ekki áhuga á mat (eða það veit ég annars ekkert um, ég þekki ekki svoleiðis fólk.) En mér finnst pínulítið asnalegt, af því að bókin var að koma frá Englandi í gær, að fara beint með hana þangað aftur. Þannig að ég reyni frekar að finna mér eitthvað til að lesa í Leifsstöð.
Boltastelpan vill að ég komi með eitthvað flott handa henni heim frá útlöndum. Engar nánari vísbendingar. Bara eitthvað flott. Ég á líka að koma með eitthvað handa bróður hennar, segir hún, en það þarf ekki að vera flott.