Ég skil ekki alveg spurningu sem ég fæ stundum þegar ég er á leið til útlanda: ,,Ertu byrjuð að pakka niður?" Byrjuð hvað? Eins og ég skrifaði fyrr í dag er ekki eins og ég sé vön að taka hálfa búslóðina með. Ég tek til dæmis enga ferðatösku með á morgun, bara minn trausta leðurbakpoka sem getur farið í handfarangur. Sleppi þykkum peysum og treysti bara á að það verði ekkert tiltakanlega kalt þarna úti.
Ókei, einu sinni gat þessi spurning alveg átt við. Áður tók ég iðulega allt of mikið með mér og var heillengi að vesenast í að pakka niður. Svo var ég orðin leið á því og fann upp fína reglu sem ég hef beitt miskunnarlaust síðan. Hún er svona: Ef það er ekki komið niður í tösku hálftíma eftir að ég byrja að pakka, þá fer það ekki með. Punktur.
Þetta er afbragðsgóð regla sem hefur gefist mér mjög vel.