Ég var að panta nokkrar bækur frá amazon.co.uk, þar á meðal nýja matreiðslubók hertogaynjunnar af Devonshire. Aðalástæðan var kannski sú að ég sá í umsögn um bókina að hún hefst á orðunum ,,I haven't cooked since the war." Líklega mundi varla nokkur manneskja önnur en ein Mitford-systra láta sér detta í hug að skrifa matreiðslubók og byrja á að lýsa því yfir að hún hafi ekki eldað í sextíu ár.
Ég er semsagt ekki að kaupa bókina út af uppskriftunum. En reyndar skilst mér að það séu ýmsar ágætar uppskriftir í bókinni, þó fremur frá kokkum hertogafrúarinnar en henni sjálfri. Hins vegar er alltaf gaman að lesa um enska yfirstéttarsérvitringa. Mitford-fjölskyldan er kannski frægust þeirra allra. Alan, sem ég er að fara að hitta í næstu viku, er líka þeirrar tegundar.