Mér leiðist að skemmta mér.
Ég held að ég hafi stolið þessum frasa frá Villa, fremur en hann hafi fengið hann frá mér, en hann á allavega vel við mig svona yfirleitt. Ekki undantekningarlaust, það getur verið fínt að fara út að skemmta sér í góðum hópi, skreppa á barinn og svoleiðis, en almennt séð leiðast mér skemmtanir. Árshátíðir, þorrablót, bjórkvöld, skemmtikvöld af ýmsu tagi ... ekki minn tebolli, eins og efnafræðistúdentinn mundi segja. Ég tala nú ekki um þegar einhver ofvirk skemmtinefnd eða ofurhress skemmtanastjóri fer að láta fólk taka þátt í samkvæmisleikjum. Ég þoli ekki samkvæmisleiki. Mér finnst ekki bara leiðinlegt að gera sjálfa mig að fífli fyrir framan fjölda manns, mér finnst almennt ekkert gaman að sjá aðra gera sig að fífli fyrir framan fjölda manns. Ekki einu sinni fólk sem mér er ekkert sérlega vel við. Og þar sem samkvæmisleikir ganga meira og minna út á að láta einhvern gera sig að fífli, þá er þetta ekki skemmtilegt. Ef ég man rétt vorum við Villi komin að þeirri niðurstöðu að kannski leiddist okkur ekkert að skemmta okkur, heldur að láta skemmta okkur.
Þetta er ekkert inngangur að frásögn af einhverri leiðinlegri skemmtun. Ég var bara að velta þessu fyrir mér áðan þegar ég var að rölta heim úr útgáfuteiti, svona af því taginu sem telst til kokkteilboða en ekki skemmtana - að vísu var alls ekki boðið upp á kokkteil, heldur Shiraz-vín af ýmsu tagi, því það var verið að halda upp á útkomu vínbókarinnar hans Þorra, sem ég held reyndar að sé ekki komin út, allavega var ekkert eintak af henni sjáanlegt. Og þar sem útgáfuteitið var inni í Laugardal og ég bý á Skólavörðuholtinu, þá gafst tími fyrir töluvert miklar pælingar. Þær voru reyndar ekki allar um skemmtanir.
Það er samt tvennt sem getur gert heilmikið til að bjarga svona skemmtunum, sérstaklega árshátíðum og þess háttar:
a) Sérlega góður matur og þjónusta. Óþarfi að útskýra nánar.
b) Sérlega vondur matur og þjónusta. Þá getur maður skemmt sér við það lengi að úthúða matnum, kokkinum, þjónunum, staðnum, og ef því er að skipta skemmtinefndinni eða öðrum sem maður telur ábyrga. Ég man til dæmis eftir árshátíðinni þar sem brimsölt sjávarréttasúpan var borin fram með hálffrosnum skelfiskbitum út í, sósan með illa steiktu kjötinu var hálfköld og kartöflurnar hálfharðar, annað meðlæti var blandað Ora grænmeti úr dós, maturinn sem grænmetisæturnar fengu var borinn fram með sömu kjötsósunni (og Ora-grænmetinu), og eftirrétturinn var ís úr pakka. Hversdagsís, nánar til tekið. Ef ég man rétt var skýringin sú að kokkurinn hafði sagt upp fyrr um daginn og rokið burt í fússi. Þetta var efni í mikið baktal og diss um staðinn og hægt að skemmta sér ágætlega við það.
Það bjargar hins vegar engu að fá Geir Ólafs til að syngja. Staðreynd.