Ég veit ekki hvort ég er svona litríkur persónuleiki eða hvort vinnufélagar mínir eru upp til hópa svona litlausir. En ég tók alveg sérstaklega eftir þessu núna í morgun, þá gengum við ein þrjátíu inn í skönnun til að færa konu sem þar vinnur blómvönd af ákveðnu tilefni og þegar við stóðum þarna í hóp tók ég eftir því að allir hinir voru klæddir frá toppi til táar í svart (langalgengast), hvítt, grátt, ljósdrappað ... nema ég. Ég er náttúrlega í eplagrænni peysu, mosagrænum buxum (og vínrauðum sokkum, en það var eiginlega óvart).
Þetta er svosem ekki í fyrsta skipti sem ég sker mig svona úr. Kannski ögn skárra á sumrin en frá hausti til vors er ég iðulega eina manneskjan sem sést í rauðu, rauðgulu, grænu, fjólubláu ... Hinir halda sig meira og minna við svart, hvítt, grátt, brúnt og drappað. Aðallega samt svart og dökkgrátt. Jakkinn minn var í gær eina ljósa flíkin í fatahenginu innan um allar dökku yfirhafnirnar.
Sama með heimili mitt. Í fyrra sat ég með hópi samstarfskvenna minna hér niðri í kaffistofu og þær voru að tala um íbúð sem ein þeirra hafði komið í nýverið, sem var máluð af mikilli litagleði. Þær býsnuðust yfir þessu og höfðu uppi ýmsar skoðanir um geðheilsu þeirra sem máluðu í þessum litum. Það sló þögn á hópinn þegar ég laumaði því út úr mér að þetta hefði alveg eins getað verið lýsing á íbúðinni minni.
Ég held að ég hafi aldrei á ævinni málað hvítan vegg.
Sem minnir mig á, ég á enn eftir að mála eldhúsið.