Ég fór að velta því fyrir mér áðan hvaða íþróttir ég horfi eiginlega á í sjónvarpinu og þetta er líklega nærri tæmandi listi:
Frjálsar íþróttir, sérstaklega tugþraut. (Langflottustu strákarnir. Þótt enginn hafi nokkru sinni komist í hálfkvisti við Daley Thompson.)
Súmóglíma. (Langstærstu strákarnir ... Ég hef sagt frá því áður þegar við efnafræðistúdentinn lágum afvelta hvort í sínum sófanum seint á aðfangadagskvöld og horfðum á súmóglímu á Eurosport.)
Skíðastökk. (Veit ekki alveg af hverju, líklega er ég alltaf að vonast eftir að einhver missi skyndilega flugið í miðju stökki eins og ég sá einu sinni gerast. Það var sjón að sjá. Og nei, það var ekki Eddie the Eagle.)
Formúla. (Ekki spyrja hvað bílprófslaus húsmóðir á fimmtugsaldri sjái við kappakstur.)
Rugby. (Þá sjaldan það sést.)
Curling. (Það er svo skemmtilega absúrd íþrótt.)
Íþróttir eins og sleðabrun, kappróður og lyftingar. (En bara örsjaldan. Og ég fór að hafa verulegar áhyggjur þegar ég áttaði mig á því í fyrra að ég þekkti Georg Hackl í sjón.)
Íþróttir sem ég mundi alls ekki horfa á: til dæmis körfubolti (einstaklega illa vaxnir og hallærislegir karlmenn upp til hópa), hjólreiðar og brimbrettareiðar.