Fyrir réttum tveimur árum mætti ég með tertur í vinnuna til að halda upp á að þann dag voru fimmtán ár síðan ég hóf störf hjá Iðunni. Til allrar hamingju bauð ég upp á bakkelsið með morgunkaffinu. Það var ekki sama stemmning eftir hádegið.
Kalt að segja það, kannski, en ég er búin að vera að hugsa mun meira í dag um gömlu vinnufélagana mína, sem nú eru komnir út um víðan völl og ég hitti aldrei, en fólkið sem fórst í árásinni á tvíburaturnana. Það er alltaf verið að drepa fólk í þúsundatali út um allan heim og takmarkað sem ég get gert við því (þótt auðvitað eigi maður alltaf að reyna að leggja eitthvað fram). En þegar fólk sem maður hefur umgengist svo til hvern einasta vinnudag í tíu ár eða meira hverfur allt í einu úr hversdagslífinu, þá finnur maður fyrir því.