Það ætlar enginn endir að verða á framkvæmdagleði minni. Nú umbylti ég öllu í svefnherberginu mínu og festi meðal annars upp fatahengi/hillu sem ég keypti á útsölu fyrir hálfu öðru ári og hefur staðið upp á endann úti í skoti síðan. Við það verk notaði ég borvél, stjörnuskrúfjárn, málverk, blýant merktan Málfrelsissjóði og sultukrukku (þetta er nú farið að hljóma eins og atriði í Olsen-banden-mynd, þegar Egon ,,har en plan" og er að telja upp það sem til þarf). Með sama áframhaldi næ ég að taka niður jólaskrautið í borðstofunni fyrir veturnætur, en þá er að vísu spurning hvort tekur því lengur.