Ég kom við í Bókavörðunni á heimleið úr vinnunni og keypti þrjár bækur eftir Helgu Sigurðardóttur sem ég átti ekki fyrir, þar á meðal Lærið af Helgu Sigurðar (nei, hún heitir það reyndar ekki, hún heitir Lærið að matbúa). Svo er þarna bókin Hráir grænmetisréttir, sem líklega er ekki algeng, allavega sagðist Bragi ekki muna eftir að hafa fengið hana í sölu fyrr. Ég var að athuga hvaða gulrófuuppskriftir væru í henni því að ég er að undirbúa gulrófuþátt fyrir Gestgjafann, og þá sá ég að Helga skrifar ýmist gulrófusalat eða gulrófnasalat, ég sé ekkert samræmi í þessu hjá henni. Ég get ekki alveg gert upp við mig hvort er betra.
Annars liggur ansi nærri því að ég sé sammála því sem Elizabeth Schneider skrifar um gulrófnamatreiðslu í sinni miklu grænmetisbiblíu: ,,There is really just one way not to cook it: in lots of water for a long time," - mér þykja flestar matreiðsluaðferðir betri en suða í vatni, þegar gulrófur eru annars vegar.