Efnafræðistúdentinn hélt í helgarferð upp í Borgarfjörð í gærkvöldi ásamt spúsu sinni, gratís gegnum göngin, og skildi mömmu sína eina eftir alla helgina. Vann þó eitt mikið afrek áður en hann fór; fékk vin sinn til að bera gömlu uppþvottavélina með sér niður stigann og út í undirganginn, þar sem hún verður þangað til henni verður hent eftir helgina. Það tók ekki nema rúman hálfan mánuð að koma þessu í kring, sem er óneitanlega nokkur framför frá því að honum var falið að koma gömlu eldavélinni út; hún stóð í þrjár vikur á ganginum. Þegar kemur að því að ég get losað mig við gamla ísskápinn er óvíst að ég þurfi að hafa hann á borðstofugólfinu nema í viku til tíu daga.
Annars var þessi ferð ekki farin að hans frumkvæði, þar sem tjald var með í för. Hann er ekki mikið fyrir útilegur fremur en ég og reyndar hef ég aldrei skilið þessa áráttu fólks til að liggja í tjöldum út um allt hvenær sem færi gefst og hvernig sem viðrar. Þetta er nokkuð séríslenskt fyrirbrigði ef marka má grein sem ég var að lesa í Grapevine, þar sem Englendingur skrifar ,,This is the only country I know where the word camping isn't a dirty word ... In Iceland people actually enjoy camping."
Ég meina, hvað er svona frábært við að sofa í tjaldi? Maður er að drepast úr kulda, eða sólin skín á tjaldið og maður er að drepast úr hita og loftleysi, það er næstum alltaf rigning, undirlagið er hart og óslétt eða allavega frekar óþægilegt og maður vaknar hvort eð er yfirleitt á beru tjaldgólfinu, eina leiðin til að láta fulla Íslendinga ekki halda vöku fyrir sér hálfa nóttina er að vera fullur sjálfur, það er ömurlegt að vakna timbraður í tjaldi, maður þarf út til að pissa og oftast er biðröð (ef það er þá eitthvert klósett), bjórinn er aldrei nógu kaldur, í næsta tjaldi eru yfirleitt sínöldrandi foreldrar með ferlega pirrandi krakka ... maður lét sig kannski hafa þetta fyrir tuttugu og fimm eða þrjátíu árum. Ekki lengur.