Það kom maður til mín í vinnuna í dag og færði mér nýtt leikfang, og þá er ég ekki að meina leikfang af því tagi sem menn voru vanir að færa þeim sem höfðu aðsetur í skrifstofukytrunni minni á undan mér, nefnilega ritstjórum Bleiks og blás. Neinei, þetta var náttúrlega eldamennskudót, nánar tiltekið herjansmikil wokpanna á nýja flotta grillið mitt, ásamt níðþungri járnplötu sem sett er á grillið í staðinn fyrir aðra grillgrindina og sérstökum wokbrennara.
Ég gat náttúrlega ekki stillt mig um að prófa þegar heim kom. Var reyndar fyrst eitthvað að vandræðast með að skipta um brennara, gat ekki alveg séð hvernig átti að fara að því. Ég var að velta fyrir mér að hringja eftir einhverjum bóngóðum karlmanni mér til aðstoðar en áttaði mig svo á því að alla tiltæka bóngóða karlmenn sem ég þekki er ég annaðhvort nýlega búin að brúka til einhvers og kann ekki við að kvabba á þeim strax aftur, eða ég ætla að nota þá í eitthvað annað innan tíðar og þarf að spara þá. Svo að ég ákvað að gera þetta sjálf og þegar til kom var það lítið mál. Brennarinn svínvirkaði, ég náði upp mun meiri hita á wokpönnunni en mér tekst á wokhellunni á gasvélinni, svo að nú er vel líklegt að þegar ég þarf að veltisteikja eitthvað (og veðrið er þokkalegt), þá fýri ég bara upp í grillinu til að ná sem bestum árangri.´
Ég held líka að ég geti sem best soðið eitt og annað í wokpönnunni ef á þarf að halda. Jafnvel gulrófusúpu. En ég gerði nú ekki tilraun með það í þetta skipti.
Nýjustu græjurnar mínar (grillið og uppþvottavélin) eiga það sameiginlegt að vera framleidd á Nýja-Sjálandi. (Ja, allavega undir nýsjálenskum vörumerkjum - það getur svosem vel verið að þetta sé búið til í einhverri þrælafabrikku í Malasíu). Ég er mjög hrifin af nýsjálenskum græjum. Verst að það skuli ekki vera flutt inn meira af þeim, því að ég þarf að kaupa ísskáp næst þegar ég á peninga. Sirka 2005.