Hér er annars eftirréttur fyrir matarboðið um helgina. Eða næstu helgi eða þarnæstu. Bara fyrir fullorðna. En ef gera á barna- eða bindindismannavæna útgáfu má sleppa koníakinu (og breyta nafninu á ísnum) og setja vanilluessens, vanillusykur eða annan bragðgjafa í staðinn.
Ég nota náttúrlega ísvélina mína en hún er satt að segja alls ekki nauðsynleg og það á ekkert að þurfa að hræra í þessum ís á meðan hann er að frjósa, þetta er bara rjómi og eggjarauður, engar hvítur.
Koníaksís
5 eggjarauður
100 g sykur
3-4 msk koníak
1/2 l rjómi
75 g súkkulaði, saxað
50 g hnetur, saxaðar (hesli-, val- eða pekanhnetur)
Eggjarauður, sykur og koníak þeytt mjög vel saman. Rjóminn stífþeyttur í annarri skál og blandað saman við með sleikju og síðan er súkkulaði og hnetum blandað saman við, hellt í form og fryst, helst yfir nótt. Gott að taka ísinn úr frysti 15-20 mínútum áður en hann er borinn fram og láta standa í kæli. En svona ís ætti reyndar ekki að verða mjög harðfrosinn. Það má hafa sósu með, t.d. súkkulaðisósu (jafnvel koníaksbætta) en ég mundi reyndar frekar hafa einhverja ávexti eða ber.