Eldfjallið ríður þessa dagana húnvetnskum stóðhesti um sveitir og skemmtir sér konunglega; lætur sér ekki einu sinni bregða þegar graddinn fer að gerast nærgöngull við merar sem á vegi hans verða og þykir það bara skondið. Hún passar sig líka á að segja ekki afa sínum frá því að hún hafi næstum dottið af baki nokkrum sinnum, vill kannski ekki eiga á hættu að hann setji undir hana þægari og latari reiðskjóta. Mér heyrist á öllu að hún hafi erft ansi mikið af berndsenskum genum frá honum.
Sauðargæran bróðir hennar trúlega líka, en þessa stundina eru það matreiðslugenin frá mér sem eru mest áberandi í fari hans. Hann kom hingað heim með mér áðan, gekk rakleiðis inn í eldhús, opnaði pottaskápinn og sótti sér pott. Bað mig svo um sleif og svo stóð hann og hrærði í pottinum á milli þess sem hann kom út á svalir og aðstoðaði mig við að grilla rauðsprettu - jæja, aðstoðin fólst nú mest í því að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá grillinu, benda á það með reglulegu millibili og segja ,,ó-ó". Sem er aðstoð líka, út af fyrir sig. Hann þvældist þá ekki fyrir mér á meðan. En hann fylgdist allavega áhugasamur með eldamennskunni.
Við Sauðargæran grilluðum aðra rauðsprettuna heila, hina í þverskornum sneiðum, og krydduðum bara með pipar, salti og sítrónusafa. Það þarf ekki uppskrift að því. Hér er aftur á móti önnur einföld grilluppskrift sem ég var búin að lofa fyrir nokkrum dögum:
Vorlauks- og mintukryddlegnar kjúklingabringur
4 kjúklingabringur, beinlausar og hamflettar, ekki mjög stórar
3 vorlaukar
hnefafylli af mintulaufi
2 hvítlauksgeirar
rifinn börkur af 1 sítrónu
3 msk ólífuolía
1/2 tsk kóríanderfræ, möluð
nýmalaður pipar
salt
Kjúklingabringurnar lagðar á bretti og 2-3 djúpar skorur skornar í hverja þeirra á ská - skorurnar ættu að ná u.þ.b. til hálfs í gegnum bringurnar. Vorlaukur, minta, hvítlaukur og sítrónubörkur sett í matvinnsluvél eða blandara og saxað smátt. Olíu, kóríander og pipar þeytt saman við. Bringunum velt út úr blöndunni og látnar liggja í a.m.k. 2 klst í kæli. Teknar úr kæli og látnar standa við stofuhita á meðan grillið er hitað vel. Bringurnar eru svo saltaðar og grillaðar við góðan hita í 4-5 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær eru rétt steiktar í gegn. Snúið einu sinni. Bornar fram t.d. með grænu salati og soðnum kartöflum, eða með grísku salati og brauði.