Stefán Pálsson er tábrotinn og er af því tilefni að velta fyrir sér táheitum. Plön hans um að verða frægur fyrir að gefa nafnlausu tánum þremur heiti minna mig á áætlanir efnafræðistúdentsins um að fá nóbelinn í læknisfræði fyrir að uppgötva hóstataugina og fleiri áður óþekkt líffæri (sem munu meðal annars stranda á því að hann fór ekki í læknisfræði). Reyndar finnst mér ólíklegt að einhver hljóti mikla frægð fyrir að nefna miðtána ,,miðtá". En ég hef heldur aldrei þurft sérstaklega á því að halda að aðgreina tærnar á mér með nöfnum, enda stunda ég ekki íþróttir og slasa mig þar af leiðandi ekki á fótunum, svo að ekki ætla ég að blanda mér í þessar hugleiðingar.
En þetta rifjaði upp fyrir mér fingraheitin sem ég ólst upp við, það er að segja danskættuðu heitin þumaltott, sleikipott, langimann, gúllibrann og litli putti spilimann. Og nú er ég farin að velta fyrir mér hvaðan gúllibrann, eða guldebrand, sé eiginlega komið. Einhvers staðar finnst mér að ég hafi lesið að þetta sé afbökun úr Gudbrand, en af hverju í ósköpunum ætti baugfingur að vera kallaður Guðbrandur? Af því bara? Kann einhver skýringu?